Bæjarráð í Fjarðabyggð hefur samþykkt að leggja nýtt gervigras í höllina og tók verðtilboði frá Metatron á Polytan Ligaturf RS 240 gervigrasi sem kostar um 40 milljónir króna. Verðtilboðið miðast við að geta endurnýtt gúmmípúðana undir vellinum og 70 prósent af því gúmmíi sem er á vellinum fyrir.

Á heimasíðu Polytan kemur fram að akademía Liverpool hafi stólað á alveg eins gras. John Owens, fyrrverandi stjóri akademíunnar segir í samtali við síðuna að hann sé mjög ánægður með grasið og það hafi verið akkúrat eins og þeir hafi óskað sér.

Þá kemur einnig fram að Stuttgart hafi tekið grasið í notkun árið 2017 á æfingavellinum sínum.

Í úttekt sem KSÍ gerði á Fjarðabyggðarhöllinni fyrir komandi tímabil kom í ljós að gervigrasið var orðið mjög slitið, það voru víða göt á því og viðgerðir sem hefur verið farið í sköpuðu hættu.

Fjöldi ljósa var óvirkur, nokkur sæti í stúkunni brotin og ekki var nægjanlegur fjöldi sæta í þeim búningsklefum sem tilheyra knattspyrnuhöllinni. Úttektin var gerð af Víði Reynissyni, sem þá var verkefnastjóri hjá KSÍ.

Leiknir kom öllum á óvart og vann 2. deildina en liðinu var spáð falli fyrir tímabilið af þjálfurum liðanna á fótbolta.net. Liðið endaði með 46 stig, stigi meira en Vestri og tveimur stigum meira en Selfoss. Talað var um eitt af knattspyrnuævintýrum sumarsins.