Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Sýn var gestur í Íþróttavikunni með Benna Bó á Hringbraut á laugardag ásamt Herði Snævar Jónssyni, íþróttastjóra á Torgi.
Afleitur sóknarleikur varð íslenska karlalandsliðinu í handbolta að falli er liðið tapaði á fimmtudag sínum fyrsta leik eftir vonbrigðin sem liðið upplifði á HM. Andstæðingur kvöldsins var Tékkland í undankeppni EM, Tékkarnir voru sterkari og unnu að lokum fimm marka sigur 22-17.
„Úrslitin voru sorgleg, þetta er einn versti landsleikur sem ég hef séð í langan tíma. Í upphafi skal endirinn skoða, það voru leikmennirnir sem komu að því að Guðmundur Guðmundsson var látinn taka poka sinn. Þessir sömu leikmenn þurftu að standa í lappirnar í Tékklandi, sem þeir geðru ekki," sagði Gaupi sem hefur séð ýmislegt í þeim fræðum.
Hann segir aðeins þrjá leikmenn liðsins hafa staðið undir væntingum á fimmtudag. „Liðið var andlaust, liðið skorti alla trú á verkefnið. Mér fannst leikmennirnir hræddir, það voru aðeins þrír leikmenn stóðu undir væntingum, Björgvin Páll, Viggó og Ýmir Örn. Aðrir leikmenn sýndu ekki eitt.“
„Leikmennirnir sjálfir þurfa að líta í eigin barm. Fyrst og síðast þurfa menn að skammast sín og síðan að draga þeta saman, þjappa sér saman fyrir sunnudaginn. Ég er viss um að þeir vinni leikinn, þetta er djúpstæður vandi. Menn þurfa að skoða framhaldið mjög vel, ekki bara leikmennirnir.“
Guðjón segir að þeir sem ráða hjá HSÍ þurfi líka að finna eftirmann Guðmundar fyrr en síðar, tíminn sé naumur til þess að ná utan um starfið.
„Forysta sambandsins þarf að líta inn á við hvað þeir ætla að gera í framhaldinu. Formaðurinn sagði á dögunum að þeir ætluðu að gefa sér góðan tíma til að finna eftirmann Guðmundar, að þeir hefðu tíma fram á haust. Þeir hafa hann ekki, þeir þurfa að ráða mann í fullt starf.“
Ísland mætir Tékkum aftur um helgina en uppselt er á leikinn á sunnudag. „Við fáum góðan leik, það er pressa á leikmönnum liðsins að sýna sitt rétta andlit.“
Umræðan er hér að neðan.