Samtök þýskra félagsliða í handbolta karla hafa veitt leikmönnum sem leika þar í landi heimild til þess að koma til Íslands og spila leik íslenska liðsins gegn Litháen í undankeppni EM 2022 sem fram fer miðvikudaginn 4. nóvember. Þetta staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri handknattleikssambands Íslands, HSÍ, í samtli við handbolta.is.

Níu leikmenn sem valdir voru í leikmannahóp Guðmundar Þórðar Guðmundssonar fyrir leikinn við Litháa spila með þýskum liðum en þar að auki þjálfa Guðmundur Þórður og aðstoðarmaður hans, Tomas Svensson, í Þýskalandi

Róbert Geir segir kröfur þýsku félagsliðanna um sóttvarnir hafi verið í takt við það sem fram kemur í íslenskum sóttvarnarreglum um vinnusóttkví sem leikmenn og forráðmenn Íslands verði í á meðan á dvöld þeirra stendur hér heima.

Þannig verði framkvæmdar reglulegar skimanir á leikmönnum og forráðamönnum íslenska liðsins sem hitti ekki utanaðkomandi aðilar í kringum æfingar og leikinn. Af þeim sökum hafi leyfið verið veitt.

Eins og áður hefur komið fram hefur leik Íslands og Ísrael sem fram átti að fara í undankeppninni í Laugardalshöll laugardaginn 7. nóvember verið frestað vegna ferðatakmarkana sökum kórónaveirufaraldursins.