Leik­menn kvenna­liðs þýska hand­knatt­leiks­fé­lagsins Metzin­gen komust að frekar ó­þægi­legum hlut eftir æfingu liðsins seint um kvöld í janúar fyrr á þessu ári. Þegar komið var í búnings­klefann og leik­menn fóru í sturtu kom í ljós mynda­vél sem hefur nú verið staðfest að þjálfarinn hafði komið fyrir og enginn vissi um.

Frá þessu greinir sænska hand­bolta­konan Thess Krönell í sam­tali við Göte­borgs-Posten á dögunum. Thess var á þessum tíma leik­maður Metzin­gen en hún hefur nú rift samningi sínum við fé­lagið.

,,Þetta kom í ljós eftir æfingu eitt kvöldið. Nokkrir leik­menn fóru í sturtu eftir æfingu og komu auga á mynda­vél sem hafði verið að taka upp mynd­bönd," segir Thess í sam­tali við Göte­borgs-posten.

Málið vakti mikinn óhug og at­hygli í sam­fé­laginu í Metzin­gen sem er að sögn Thess mikið hand­bolta sam­fé­lag. ,,Allt sam­fé­lagið tók þetta mjög nærri sér."

Ó­víst var á þeirri stundu hver hafði komið mynda­vélinni fyrir en fljót­lega beindust spjótin að þjálfara liðsins. ,,Yfir­maður í­þrótta­mála hjá fé­laginu boðaði okkur á sinn fund og sagði okkur að þjálfarinn hefði sett upp mynda­vélina. Við urðum mjög sorg­mæddar, undrandi og reiðar. And­rúms­loftið varð mjög þungt í kringum liðið á þessum tíma."

Hald var lagt á mynda­vélina og sömu­leiðis það efni sem tekið hafði verið upp. Ó­ljóst er á þessari stundu hvaða mynd­efni fannst á minnis­korti mynda­vélarinnar en þjálfarinn hefur ekki verið dæmdur fyrir neitt.