Liðsandinn hjá liðinu er á slæmum stað samkvæmt frétt Daily Mail og Ralf Ragnick, svo til nýráðnum bráðabirgðaknattspyrnustjóra liðsins hefur ekki tekist að leysa vandamálin sem hann erfði frá fyrrum knattspyrnustjóra liðsins, Ole Gunnar Solskjær.

,,Margir þessara leikmanna, meðal annars nokkrir stjörnuleikmenn liðsins, eru á langtímasamningi og mun ekki verða leyft að yfirgefa félagið en búast má við því að mikill fjöldi leikmanna fari frá liðinu á næstu átta mánuðum," segir í frétt Daily Mail um málið.

Vefmiðilinn segir enn fremur að Ragnick hafi fundað með nokkrum af þessum leikmönnum sem hafi viljað ræða framtíð sína.

Talið er næsta víst að Anthony Martial, sóknarmaður liðsins fari á láni frá félaginu núna í janúar og er spænska liðið Sevilla talið vera líklegasti áfangastaður hans.

Þá virðast miðjumennirnir Jesse Lingard og Paul Pogba á förum frá félaginu. Þeir eiga aðeins sex mánuði eftir af sínum samningi og gætu farið á frjálsri sölu næsta sumar. Þeim er frjálst að ræða við félög utan Englands núna.

Svipaða sögu er að segja af sóknarmanninum Edinson Cavani, sem rennur út á samningi hjá félaginu næsta sumar. Hann mun ekki fara frá félaginu núna í janúar. Ragnick sér hann sem mikilvægan leikmann fyrir sig það sem eftir lifir tímabils.

Þá eru þeir Donny van de Beek, Dean Henderson og Eric Bailly, ósáttir með lítinn spilatíma og eru opnir fyrir því að yfirgefa félagið eftir yfirstandandi tímabil.

Þetta er ekki tæmandi listi af þeim leikmönnum sem gætu yfirgefið Manchester United á næstu átta mánuðum. Það má búast við miklum breytingum á leikmannahópi liðsins milli leiktíða.