Sjúkraþjálfarinn Einar Einarsson segir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni ekki tilbúna í átök vetrarins. Hann segir þá ekki hafa fengið nægan tíma í undirbúning.
Þetta kemur fram í viðtali Tómasar Þórs Þórðarsonar, ritstjóra enska boltans á Símanum Sport við Einar. Það var sýnt í gær en horfa má á spjall þeirra í myndbandinu neðst í fréttinni. Mikið hefur verið um meiðsli á þessu tímabili.
Áhugaverð greining hjá einum okkar færasta sjúkra- og styrktarþjálfara sem var m.a. einkasjúkraþjálfari Joel Embiid. Það er skortur á pre season sem er að stuðla að öllum þessum meiðslum í EPL. Var ekki tími til að undirbúa leikmenn f. þetta álaghttps://t.co/sjt6MnLdjA
— Tómas Þór Þórðarson (@tomthordarson) November 28, 2020
Einar segir aldrei hafa gefist tími til að undirbúa leikmenn undir átökin. Það sem skiptir mestu máli er að þjálfa hámarks ákefð. Snýst þannig séð ekki um leikinn sjálfan eða þessar 90 mínútur sem leikmenn spila,“ segir Einar.
Hann starfar nú á Aspetar íþróttasjúkrahúsinu í Katar. „Þetta snýst um hversu marga spretti þú tekur hverja viku fyrir sig og hversu góður leikmaðurinn er að taka endurtekna spretti. Þjálfun knattspyrnumanna milli leikja snýst um þetta að mörgu leyti. Undirbúningstímabilið snýst um að koma leikmönnum á stig svo þeir geti tekið þessi krefjandi hlaup undir lok leikja sem dæmi,“ segir hann.
„Það varð ekkert úr undirbúningstímabilinu og það er búið að auka leikjaálagið til muna. Tækifærin til að þjálfa þessa hluti eru þess vegna mun minni núna þar sem tíminn á milli leikja snýst um að jafna sig.“