Leikmannasamtök Íslands birta í dag mynd af samningi hjá leikmanni í Bestu deild kvenna þar sem það kemur í ljós að félagið fríar sig undan öllum skuldbindingum ef leikmaðurinn verður þungaður á samningstímanum.

Í því samhengi minna leikmannasamtökin á að Sara Björk Gunnarsdóttir hafi unnið áfangasigur fyrir knattspyrnuhreyfinguna þegar hún lagði Lyon fyrir dómstólum.

Þar kemur fram að allar skuldbindingar félagsins falli úr gildi frá tíundu viku meðgöngu þar til leikmaður hefji næst leik í Íslandsmótinu eða bikarkeppni.

Eins og fjallað hefur verið um á vef Fréttablaðsins vann Sara mál gegn evrópska stórveldinu fyrir dómstólum FIFA eftir að franska félagið hélt eftir launum þegar Sara var ólétt.

Þá greindi Sara frá kuldalegri viðleitni forráðamanna félagsins í pistli á The Players Tribune þegar þeir reyndu að koma í veg fyrir að sonur hennar, Ragnar, fengi að koma með í útileiki þegar hann var enn á brjósti.

Sara minntist um leið á viðbrögð Jean-Michel Aulas, eiganda félagsins, sem virtist ætla sér að sniðganga Hafnfirðinginn þegar Sara kom aftur til franska félagsins eftir barnsburð.