Í nýrri reglugerð sem samþykkt var af enska knattspyrnusambandinu, ensku úrvalsdeildinni, leikmannasamtökunum og þjálfarasamtökunum kemur fram að atvinnumenn í knattspyrnu á Englandi megi aðeins æfa skalla úr föstum sendingum tíu sinnum í viku.

Er þar átt við sendingar úr langri sendingu, fyrirgjöf, hornspyrnu eða aukaspyrnu.

Um leið verða félög hvatt til þess að gefa leikmönnum nægan tíma eftir leiki og æfingar til endurhæfingar.

Á sama tíma er ætlast til þess að áhugamenn og yngri knattspyrnuiðkendur skalli boltann ekki oftar en á einni æfingu á viku og aðeins tíu sinnum á þeirri æfingu.

Áður var búið að banna leikmönnum að skalla boltann í yngstu flokkum.

Undanfarin ár hefur verið kallað eftir því að áhrif þess að skalla boltann séu rannsökuð og hættan á því að það leiði til heilaskaða síðar meir.