Julian Draxler, leikmaður PSG og þýska landsliðsins, gagnrýndi leikskipulag Unai Emery og liðs PSG í tapi gegn Real Madrid í gær en um leið datt PSG út úr Meistaradeild Evrópu í 16-liða úrslitum, annað árið í röð.

Markmið PSG var að fara alla leið í Meistaradeildinni enda með einn dýrasta leikmannahóp Evrópu. Þótt þeir hafi saknað Neymar í seinni leiknum hefur Emery og liðið verið gagnrýnt eftir að hafa fallið út eftir 2-5 tap samanlagt í einvíginu.

„Við gerðum ekki nóg, við höfðum háleit markmið eins og borgin en við vorum allt of flatir sem gengur ekki gegn liði eins og Real Madrid. Við vorum meira með boltann en gerðum gjörsamlega ekkert. Í stað þess að sækja og leitast eftir markinu sem við þurftum vorum við tilbúnir til að bíða og áttum í raun skilið að detta út. Það var eytt fúlgum fjár í að styrkja liðið í sumar en við dettum út á sama stigi,“ sagði Draxler sem furðaði sig á skipulagi liðsins en hann kom inn af bekknum þegar korter var eftir:

„Ég skildi ekki uppleggið hjá Unai né skiptingarnar, hann bíður með breytingar eftir að við skoruðum í stað þess að halda áfram að sækja. Ég var mjög hissa og fúll með skiptingarnar.“