Pontus Jansson, leikmaður Leeds United, lét sér ekki nægja að mæta á leik Chelsea og Malmö í Evrópudeildinni í gær heldur stjórnaði hann stuðningssveit sænska liðsins fyrir leikinn.

Jansson er uppalinn hjá Malmö og lék með liðinu til 2014 þegar hann fór til Torino á Ítalíu. Sænski landsliðsmaðurinn hefur leikið með Leeds frá 2016.

Hinn 28 ára Jansson er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Malmö og þá sérstaklega eftir uppákomuna fyrir utan Stamford Bridge í gær. Þar stjórnaði hann söngvum stuðningsmanna Malmö.

Góður stuðningur úr stúkunni dugði Malmö þó skammt í gær. Chelsea vann 3-0 sigur og einvígið 5-1 samanlagt. Chelsea verður því í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar síðar í dag.

Arnór Ingvi Traustason var í byrjunarliði Malmö og lék fyrstu 72 mínúturnar.