Brooklyn Nets fékk stærsta bita leikmannamarkaðsins í NBA-deildinni í gær þegar liðið fékk stjörnuna James Harden frá Houston Rockets til að mynda ógnarsterkt þríeyki.

Hjá Brooklyn hittir Harden fyrir Kevin Durant, fyrrum liðsfélaga sinn úr Oklahoma City Thunder og stjörnubakvörðinn Kyrie Irving sem er þó eitthvað fjarlægur þessa dagana.

Forráðamenn Nets lögðu framtíðina að veði með því að skipta þremur valréttum úr fyrstu umferð ásamt því að senda frá sér þrjá unga leikmenn. Alls komu fjögur lið að skiptunum.

Alls fékk Houston þrjá leikmenn í Victor Oladipo, Dante Exum, Rodions Kurucs og fjóra valrétti í fyrstu umferð nýliðavalsins næstu fimm árin ásamt því að eiga rétt á valréttaskiptum við Brooklyn Nets fjórum sinnum á næstu sex árum.

Þetta var kostnaðurinn sem Nets greiddi fyrir Harden sem hefur verið valinn í úrvalslið NBA-deildarinnar sex sinnum á síðustu sjö árum og undanfarin þrjú ár verið stigahæsti leikmaður deildarinnar.

Þá fékk Indiana Pacers hinn fjölhæfa Caris LeVert frá Brooklyn Nets og valrétt í annarri umferð nýliðavalsins árið 2023 fyrir aðkomu sína að leikmannaskiptunum á meðan Cleveland Cavaliers fékk Jarrett Allen og Taurean Prince frá Brooklyn.