Leikmannasamtökin á Spáni komu Ousmane Dembele, franska landsliðsmanninum til varnar, eftir að Börsungar tilkynntu opinberlega að hann ætti að yfirgefa félagið.

Dembele á sex mánuði eftir af samningi sínum við Barcelona eftir að hafa verið keyptur á morðfjár frá Borussia Dortmund. Viðræður um nýjan samning hafa ekki gengið eftir og hafa Börsungar gefist upp.

Fyrir vikið lýsti yfirmaður knattspyrnumála, Mateu Alemany, því yfir að félagið vildi ekki hafa leikmenn sem væru ekki skuldbundnir verkefninu innanborðs og var honum kippt úr úr hópnum á síðustu stundu.

Spænsku leikmannasamtökin sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja að félaginu sé óheimilt að mismuna leikmönnum þótt að þeir séu ekki tilbúnir að skrifa undir nýja samninga við félagið.

Sjálfur deildi Dembele yfirlýsingu á samfélagsmiðla sína í dag þar sem hann sagði málið flókið og að hann hefði fengið nóg af því að fólk væri að ljúga um stöðu hans.