Frændi varnarmannsins Damar Hamlin sem fór í hjartastopp í leik Buffalo Bills og Cincinatti Bengals í NFL-deildinni á mánudaginn segir að Hamlin sé enn þungt haldinn en að það virðist sem svo að hann sé að þokast í rétta átt.

Hinn 24 ára gamli Hamlin hneig niður í leik Bills og Bengals þegar hann fór í hjartastopp. Starfsfólki leikvangsins tókst að bjarga lífi hans með endurlífgun og var hann fluttur á sjúkrahús.

Að sögn frænda hans, Dorrian Glen, fór Hamlin aftur í hjartastopp á sjúkrahúsinu en það tókst að endurlífga hann í bæði skiptin.

Að sögðn Dorrian er næsta skref er að sjá hvort að Hamlin geti andað upp á eigin spýtur þar sem það sé ljóst að lungu Hamlin hafi orðið fyrir skemmdum.

„Hann er enn á lífi og á batavegi. Þeir halda honum sofandi til að auka líkurnar á því að hann nái fullum bata en við endurmetum stöðuna daglega og hann virðist vera að þoka í rétta átt, guði sér lof,“ sagði Dorrian í samtali við CNN.