Atvikið átti sér stað í leik Stál-Úlfs og Þróttar Vogum í 2. deild karla sem fór fram þann 11. nóvember.

Í atvikaskýrslu frá dómara leiksins sem barst Körfuknattleikssambandi Íslands, kemur fram að Karolis Venclovas hafi skallað leikmann Þróttar Vogum. ,, Um hafi verið að ræða árás án aðdraganda og fyrirvara". Dómarar leiksins hafi veitt honum óíþróttamannslega villu en síðar uppfært villuna í brottrekstrarvillu.

,,Við það hafi kærði brugðist mjög illa við, gengið að dómara leiksins með ógnandi fasi og framkomu. Kærði hafi sett brjóstkassa sinn upp að brjóstkassa dómara og fært andlit sitt í persónulegt rými dómara, að því er virtist mjög meðvitaður um hæðarmismun þeirra. Loks hafi kærði látið orð falla á móðurmáli sínu sem dómari hafi túlkað sem niðrandi í ljósi aðstæðna," segir í úrskurði KKÍ um málið.

Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ barst myndband af atvikinu þar sem sést hvernig Karolis skallar mótherja sinn. Þegar ákvörðun hefur svo verið tekin um brottvísun má sjá hvernig kærði gengur að dómara og rekur efri hluta líkama síns í hann.

Félagið fordæmir hegðunina

Í greinargerð sem aga- og úrskurðanefnd KKÍ barst vegna málsins frá formanni körfuknattleiksdeildar Stál-úlfs kemur fram að félagið fordæmi hegðun Karolis og slík hegðun eigi hvorki að sjást innan vallar né utan. Beðist hafi verið afsökunar eftir leik. ,,Þó er tekið fram að mikill hiti hafi verið í leiknum sem hafi byrjað vegna slakrar dómgæslu þar sem hallað hafi á Stál-úlf," segir í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KKÍ.

Fær fimm leikja bann

Það er mat aga- og úrskurðarnefndar KKÍ að háttsemi Karolis falli undir d. lið 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nefndarinnar, þar sem segir að hafi einstaklingi verið vísað af leikvelli eða keppnisstað vegna viljandi líkamsmeiðingar eða tilraunar til slíks skuli aga- og úrskurðarnefnd úrskurða viðkomandi í að minnsta kosti þriggja leikja bann nema atlagan hafi haft alvarlegar afleiðingar en þá er nefndinni heimilt að úrskurða viðkomandi í tímabundið bann í öllum flokkum.

Jafnframt er það mat aga- og úrskurðarnefndar KKÍ að Karolis hafi sýnt af sér meiriháttar ósæmilega hegðun gagnvart dómara með háttsemi sinni eftir að honum var vísað af leikvelli. Aga- og úrskurðarnefnd telur hæfilegt að hinn kærði leikmaður, Karolis Venclovas, hljóti fimm leikja bann.