Luke Ayling, varnarmaður Leeds United braut blað í sögunni um síðustu helgi þegar að hinsegindagar fóru fram í Leeds. Luke tók sér stöðu með hinsegin stuðningsmönnum Leeds United í göngunni og gekk með þeim. Þetta er í fyrsta skipti sem virkur leikmaður í ensku úrvalsdeildinni tekur þátt í göngu hinsegindaga.

Frá þessu er sagt í The Irish Mirror en Ayling er að ná sér af meiðslum og gat því ekki tekið þátt með Leeds United í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. Þess í stað kaus hann að taka sér stöðu með hinsegin stuðningsfólki Leeds sem gekk saman um götur borgarinnar.

„Ég trúði því ekki að þetta myndi gerast fyrr en Ayling birtist allt í einu," segir Stephen Wignal, formaður samtaka hinsegin stuðningsfólks Leeds United. ,,Frá þeirri stundu hugsaði ég með mér: 'vá, þetta er bara að gerast'."

Stephen segir að um tilfinningaþrungna stund hafi verið að ræða. „Þessa stundina eru ekki hinsegin leikmenn í ensku úrvalsdeildinni. Það að hafa leikmann úr deildinni standa með okkur og styðja var bara frábær stund."