Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur ákveðið að fresta þeim leikjum sem eftir á að spila í Meistaradeild Evrópu í knattapyrnu karla og kvenna sem og Evrópudeild karla á yfirstandandi leiktíð um óákveðinn tíma vegna COVID-19-veirunnar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem UEFA sendi frá sér í kvöld. Þar kemur fram að ekki hafi verið settar dagsetningar á þá leiki fyrrgreindra keppna sem voru á dagskrá í maí næstkomandi.

UEFA hafði áður ákveðið að fresta Evrópumóti landsliða í karlaflokki sem fram átti að fara næsts sumar um eitt ár sem og umspilsleikjum um sæti á því móti fram júní. Þá hefur leikjum í undankeppni EM kvenna verið frestað.

Hlé er á öllum deildarkeppnum í knattspyrnu í Evrópu fyrir utan í Hvíta-Rússlandi eins og sakir standa en evrópsku deildarsamtökin stefna að því að að klára stærstu deildarkeppnir álfunnar 30. júní næstkomandi.