Leik Lyon og PSG í Meistaradeild Evrópu knattspyrnu kvenna, sem fara átti fram annað kvöld, hefur verið frestað vegna kórónaveirusmita í herbúðum Lyon.

Um er að ræða seinni leikinn í átta liða úrslitum keppninnar. Lyon, sem er ríkjandi í keppninni, hafði betur í fyrri leiknum með einu marki gegn engu.

Ekki liggur fyrir hvort að Sara Björk Gunnarsdóttir sé einn þeirra leikmanna Lyon sem greindist smituð af kórónaveirunni.

Landsliðsfyrirliðinn er hins vegar að glíma við meiðsli sem urðu til þess að hún dró sig úr leikmannahópi íslenska kvennalandsliðsins í komandi vináttulandselik gegn Ítalíu sem fram fer 13. apríl næstkomandi.