Kórónaveirufaraldurinn er strax farinn að hafa áhrif á mótahald í Íslandsmóti kvenna í körfubolta. Lið KR og Keflavíkur eru í sóttkví þessa stundina og af þeim sökum hefur næstu leikjum liðanna verið frestað.

Keflavík lagði KR að velli í fyrstu umferð deildarinnar, 114-72, en leikmenn Keflavíkurliðsins voru eftir þann leik settar í sóttkví líkt og Vesturbæjarliðið.

Mótanefnd KKÍ hefur frestað leik Keflavíkur og Snæfells sem fyrirhugaður var laugardaginn 3. október næstkomandi.

Leiknum hefur ekki verið fundinn nýr leiktími og ekki hefur verið tekin frekari ákvörðun um næstu leiki Keflavíkur þann 7. og 14. október næstkomandi.

Áður hafði leik Keflavíkur gegn Skallagrími sem fram átti að fara annað kvöld verið frestað. Þar af leiðandi fara tveir leikir fram það kvöldið en það eru viðureignir Breiðabliks og Fjölnis og Snæfells og Hauka.