Tom Brady, leikstjórnandi Tampa Bay Buccaneers í NFL-deildinni, staðfesti í færslu á Instagram-síðu sinni í dag að leiðir væru að skilja hjá honum og brasilísku ofurfyrirsætunni Gisele Bündchen.

Með því lýkur þrettán ára hjónabandi og tæplega sextán ára sambandi. Þau giftu sig í tvígang og eignuðust tvö börn.

Hann er einn sigursælasti íþróttamaður Bandaríkjanna frá upphafi eftir að hafa orðið Superbowl meistari sjö sinnum, sex sinnum með New England Patriots og nú síðast með Tampa Bay Buccaneers.

Brady tilkynnti fyrr á þessu ári að leikmannaferlinum væri lokið en honum snerist hugur og tilkynnti Brady stuttu síðar að honum hefði ákveðið að halda áfram.

Bandarískir fjölmiðlar fullyrða að það hafi verið kornið sem fyllti mælinn hjá Giselle sem ætlaðist til þess að Brady myndi hætta til að eyða tíma með fjölskyldunni í stað þess að vera fjarverandi stóran hluta ársins vegna verkefna í NFL-deildinni.

Sjálf er hún heimsþekkt og ein tekjuhæsta fyrirsæta heims. Hún var tekjuhæsta fyrirsæta heims árið 2102 og var í 89. sæti yfir valdmestu konur heims á lista Forbes árið 2014.

Brady hefur átt í stökustu vandræðum innan vallar á þessu ári og tapaði Buccaneers fimmta leiknum af átta í nótt.