Þann 16. maí árið 2015 urðu tímamót á knattspyrnuferli Steven Gerrard er hann spilaði sinn síðasta heimaleik fyrir Liverpool, uppeldisfélags síns sem hann hafði spilað með sem atvinnumaður frá árinu 1998.

Gerrard spilaði 710 leiki fyrir aðallið Liverpool, skoraði 186 mörk og gaf 150 stoðsendingar. Hjá Liverpool varð hann enskur bikarmeistari í tvígang, Evrópumeistari árið 2005 og Evrópubikarmeistari tímabilið 2000-2001.

GettyImages

Hann hafði um áraraðir verið þungamiðja í liði Liverpool sem og í enska landsliðinu. Hann tók sitt næsta skref á knattspyrnuferlinum með bandaríska liðinu LA Galaxy þar sem hann lauk sínum knattspyrnuferli í nóvember árið 2016.

,,Ég hef átt frábæran feril sem knattspyrnumaður og ég er þakklátur fyrir allar mínar stundir hjá Liverpool, LA Galaxy og enska landsliðinu. Ég er spenntur fyrir framtíðinni og tel mig hafa meira til að gefa af mér til knattspyrnunnar... Ég er að meta nokkra möguleika núna og mun gefa út tilkynningu fljótlega varðandi framtíð mína," voru skilaboð Gerrard er hann lagði knattspyrnuskóna á hilluna.

GettyImages

20. janúar 2017

Liverpool birtir tilkynningu þess efnis að Steven Gerrard hafi verið ráðinn þjálfari í knattspyrnuakademíu félagsins. Hann átti seinna meir eftir að taka við undir 18 ára liði félagsins tímabilið 2017-2018 eftir að hafa hrifið Jurgen Klopp, knattspyrnustjóra liðsins með störfum sínum í akademíunni.

,,Mér líður eins og ég sé að loka hringnum með því að taka að mér þetta starf hjá Liverpool, félaginu þar sem að þetta byrjaði allt saman hjá mér. Þetta er hins vegar ekki ákvörðun sem er tekin út frá tilfinningum. Ég tel mig hafa eitthvað fram að færa til félagsins," sagði Gerrard er hann hafði verið tilkynntur sem þjálfari í knattspyrnuakademíu félagsins.

Steven Gerrard á hliðarlínunni
GettyImages

Til hliðar við starf sitt hjá Liverpool fór Gerrard að vinna sér inn þjálfaragráður og árið 2018 fékk hann tækifæri til þess að taka sitt fyrsta skref sem knattspyrnustjóri.

5. maí 2018

Hið fornfræga skoska knattspyrnufélag Rangers, tilkynnir að Gerrard hafi verið ráðinn knattspyrnustjóri félagsins. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið og tók við stöðunni af Graeme Murty sem hafði verið sagt upp störfum nokkrum dögum áður.

Steven Gerrard kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Rangers
GettyImages

Gerrard hóf störf hjá Rangers þann 1. júní það sama ár. Á fyrsta tímabili sínu með liðið endaði Rangers í 2. sæti skosku úrvalsdeildarinnar með 78 stig, níu stigum á eftir erkifjendum sínum í Celtic. Liðið tryggði sér þar með Evrópusæti á næsta tímabili.

Árangur Gerrards á hans fyrsta tímabilið með Rangers vakti athygli og hann var fljótlega orðaður við starf í ensku úrvalsdeildinni hjá Newcastle United.

Tímabilið 2019-20 litaðist eins og svo margt annað af Covid-19 faraldrinum. Keppni var hætt í deildinni þann 13. mars 2020 og notast var við meðaltal af stigafjölda í hverjum leik til þess að skera úr um lokaniðurstöðu liða í deildinni. Rangers endaði aftur í 2. sæti skosku úrvalsdeildarinnar.

GettyImages

Það mætti segja að í skoskri knattspyrnu séu tvö lið sem hafi staðið framar öðrum í knattspyrnusögunni með örfáum undantekningum. Nágrannaliðin og erkifjendurnir í Celtic og Rangers hafa oftar en ekki verið að berjast á toppi deildarkeppninnar í Skotlandi.

Hlutirnir breyttust hins vegar á dramatískan hátt árið 2012 þegar Rangers var dæmt niður í þriðju deild Skotlands eftir að hafa orðið gjaldþrota. Nýtt félag var stofnað á grunni þess gamla sem varð gjaldþrota og við tóku ár uppbyggingar.

Árið 2016 komst félagið aftur í deild þeirra bestu í Skotlandi og uppbyggingin frá hinu gríðarstóra falli var fullkomnuð á síðasta tímabili er Rangers varð skoskur meistari á ný undir stjórn Steven Gerrard. Þetta var fyrsti skoski meistaratitill félagsins síðan tímabilið 2010-11 og 55. skoski meistaratitillinn í sögu félagsins.

GettyImages

Yfirburðir Rangers á síðasta tímabili voru algjörir. Liðið fór ósigrað í gegnum tímabilið og endaði með 102 stig í 1. sæti. ,,Það er erfitt að koma tilfinningum í orð á þessari stundu. Ég er mjög hátt uppi núna, vegferð okkar er samt ekki lokið," sagði Gerrard eftir að Rangers varð skoskur meistari.

Hann hélt verkefni sínu með Rangers áfram á yfirstandandi tímabili og skilur nú við liðið í 1. sæti skosku deildarinnar þar sem liðið er með 30 stig eftir 13 umferðir, fjórum stigum meira en Celtic.

1.nóvember 2021

Gerrard kynntur sem nýr knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Aston Villa. Gerrard skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við félagið sem hefur verið að ganga í gegnum erfiða tíma undanfarnar vikur.

Aston Villa situr í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur tapað fimm síðustu leikjum sínum og ekki náð í stig síðan undir lok september.

,,Aston Villa er félag með mikla sögu og hefð í enskri knattspyrnusögu og ég er mjög stoltur af því að verða næsti knattspyrnustjóri liðsins,“ segir Gerrard í tilkynningu sem birtist frá Aston Villa.

GettyImages

Líkt og hjá Rangers bíður hans uppbyggingarstarf hjá Aston Villa. Hann fékk stuðninginn í Skotlandi til að setja sitt handbragð á Rangers liðið og hefur lyft félaginu á hærri stall en það var á áður.

Enska úrvalsdeildin er ein kröfuharðasta deild í heimi og því verður gaman að sjá hvernig Gerrard tekst að fóta sig sem knattspyrnumaður þar.