Íslenska karlalandsliðið í körfubolta á enn von á að komast í lokakeppni Heimsmeistaramótsns á Filippseyjum, í Indónesíu og Japan á næsta ári. Til þess þarf þó ýmislegt að ganga upp fyrir íslenska liðið.

Ítalir og Spánverjar eru þegar komnir upp úr undanriðli okkar Íslendinga. Alls fara þrjú lið áfram. Ljóst er að Georgía, Ísland og Úkraína munu berjast um síðasta sætið í lokalandsleikjaglugga undanriðilsins í febrúar næstkomandi.

Georgíumenn standa sem stendur best að vígi í þriðja sæti með 12 stig, sæti ofar en Ísland sem er með jafnmörg stig. Úkraínumenn eru svo í fimmta sæti með 11 stig.

Í febrúar á Ísland heimaleik gegn Spánverjum og útileik gegn Georgíumönnum. Auk leiksins gegn Íslandi á Georgía leik gegn Hollandi, botnliði riðilsins, á útivelli. Loks á Úkraína útileik gegn Ítalíu og heimaleik gegn Hollandi.

Íslenska liðið þarf helst að vonast til þess að Ítalía sigri Úkraínu, til að þurfa ekki á sigri gegn ógnarsterku liði Spánverja að halda í næstsíðasta leik undanriðlsins. Fari svo að Ísland tapi gegn Spáni og Úkraína vinni Ítali þarf Ísland að vinna Georgíu í síðasta leik riðilsins, ásamt því að treysta á að Úkraína tapi gegn botnliði Hollands.

Verði Ísland enn stigi á undan Úkraínu fyrir lokaumferð riðilsins er ljóst að Ísland mun spila hreinan úrslitaleik við Georgíu um sæti á HM 2023, að því gefnu að Georgía vinni botnlið Hollands, sem verður að teljast líklegt. Þessi staða kemur upp ef annað hvort Ísland og Úkraína vinna bæði sína leiki eða tapa bæði.

Georgína vann leikinn við íslenska liðið hér heima með þremur stigum. Ef allt fer eftir bókinn og Ísland mætir Georgíu í lokaumferðinni með tveimur stigum minna þarf íslenska liðið því að vinna með fjórum stigum.

Hér má nálgast stöðuna í riðli Íslands.