Gott gengi Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla hélt áfram í kvöld þegar liðið bar 2-0 sigur úr býtum í leik sínum gegn Arsenal í 12. umferð deildarinnar á King Power-leikvanginum.

Mörk Leicester City komu bæði um miðbik seinni hálfleiks. Jamie Vardy skoraði fyrra mark liðsins en hann er markahæsti leikmaður deildarinnar með 11 mörk.

James Maddison tvöfaldaði svo forystu Leicester City nokkrum mínútum síðar og þar við sat. Leicester City og Chelsea hafa 26 stig í öðru sæti deildarinnar en liðin eru fimm stigum á eftir forystusauði deildarinnar, Liverpool.

Arsenal er hins vegar í sjötta sæti deildarinnar með 17 stig en liðið hefur ekki náð að innbyrða sigur í síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni. Liðið hefur beðið ósigur í tveimur þeirra og gert tvö jafntefli.