Leicester heldur áfram að hundelta Liverpool í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn en með 4-1 sigri á Aston Villa í dag náði Leicester sex stiga forskoti á Manchester City.

Lærisveinar Brendan Rodgers eru áfram átta stigum á eftir Liverpool en eru í góðri stöðu í öðru sæti deildarinnar þegar tímabilið fer að verða hálfnað.

Kelechi Iheanacho og Jamie Vardy komu Leicester 2-0 yfir áður en Jack Grealish minnkaði muninn undir lok fyrri hálfleiks.

Jonny Evans bætti við þriðja marki Leicester í upphafi seinni hálfleiks og um miðbik seinni hálfleiks innsiglaði Vardy sigurinn með öðru marki sínu og fjórða marki Leicester.

Á sama tíma lyfti Newcastle sér upp fyrir Arsenal í 10. sæti deildarinnar með 2-1 sigri á Southampton eftir að hafa verið undir þar til á 68. mínútu leiksins.

Danny Ings kom Dýrlingunum yfir en Jonjo Shelvey jafnaði metin með marki í þriðja leiknum í röð. Á lokamínútum leiksins var það Federico Fernandez sem skoraði sigurmarkið af stuttu færi eftir markmannsmistök hjá Southampton.

Þá tókst Sheffield United að vinna 2-1 sigur á Norwich og vinna fyrsta sigurinn í tæpan mánuð eftir að hafa lent undir snemma leiks.

Norwich komst yfir á Carrow Road og leiddi í hálfleik en Sheffield United skoraði tvö mörk á upphafsmínútum seinni hálfleiks, þar seinna kom frá George Baldock sem lék um tíma með ÍBV.