Velska knattspyrnufélagið Cardiff City, sem leikur þó í enska deildarkerfinu, hefur ákveðið að leggja númerið 7 til hliðar. Þetta er gert til að heiðra minningu Peter Whittingham, goðsagnar hjá félaginu.

Whittingham lést í mars 2020 sökum höfuðáverka sem hann hlaut eftir að hafa dottið niður stiga á hóteli í Barry. Whittingham lést tólf dögum síðar á spítala.

Þessi skapandi leikmaður spilaði 459 leiki með Cardiff á árunum 2007 til 2017. Í þeim skoraði hann 98 mörk.

Jay Bothroyd, sem var liðsfélagi Whittingham hjá Cardiff, kallaði eftir því fyrir nokkru að félagið myndi leggja treyju númer 7 til hliðar. Cardiff hefur nú svarað kallinu.

Cardiff stefnir á að halda minningarleik til heiðurs Whittingham í nóvember.