Karla- og kvenna­lands­lið Ís­lands keppa til úr­slita á EM í hóp­fim­leikum á morgun. Stelpurnar hefja keppni klukkan 12 að ís­lenskum tíma og keppa strákarnir beint í kjöl­farið.

Stelpurnar unnu eins og frægt er Evrópu­meistara­titilinn í Portúgal í fyrra. Þó­nokkrar liðs­breytingar hafa orðið á liðinu síðan þá og hafa fimm stelpur úr ung­linga­lands­liðum Ís­lands komið inn í liðið síðan þá.

Íslensku stelpurnar eiga titil að verja á morgun.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

Andrea Sif Pétursdóttir, landsliðsfyrirliði, sagði hins vegar í samtali við Fréttablaðið fyrr í vikunni að stelpurnar sem væru að koma inn væru hins vegar reynslumiklar en þær hafa allar farið á stórmót með yngri landsliðum Íslands.

Þar að auki kom vara­maður inn í liðið á síðustu stundu er Kol­brún Þöll Þorra­dóttir, stiga­hæsti keppandi liðsins í fyrra og fim­leika­kona ársins, sleit hásin á síðustu æfingu liðsins á Ís­landi fyrir mótið.

Ásta Kristinsdóttir að gera tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og tvöfaldri skrúfu.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

Stelpurnar eru hins vegar vel gíraðar og segir Ásta Kristins­dóttir, sem hefur verið að stíga upp með liðinu á EM í ár og átt frá­bært mót, að mark­miðið sé enn það sama þrátt fyrir að liðið hafi breyst. Það sé þó erfitt mark­mið en stelpurnar sýndu það hins vegar í undan­keppninni að þær eru alls ekki að fara gefa neitt eftir.

Einbeitingin í hámarki í miðju stökki.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

Stelpurnar lentu í þriðja sæti í undan­keppninni en eiga nóg af stigum inni fyrir morgun­daginn en litlu munaði á 1 – 3 sæti og má því búast við harðri baráttu um verðlaunasætin.

Karla­lands­lið Ís­lands lenti í smá­vægi­legum vand­ræðum á gólfi í undan­keppninni sem reyndist liðinu dýr­keypt en strákarnir komu sterkir til baka á trampólíni og dýnu og tryggðu sér sæti í úr­slitunum.

Líkt og kvenna­liðið eiga strákarnir nóg af stigum inni en þjálfarar beggja liða hafa legið yfir mynd­bands­upp­tökum af undan­keppninni og verður allt lagt í sölurnar á morgun til að koma liðunum tveimur á pall.

Strákarnir lentu öll stökkin sín á dýnu og tryggðu sér sæti í úrslitinum.
Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson