Í nýrri greiningu Sportico sem fjallar um fjármálahlið íþrótta var LeBron James, leikmaður Los Angeles Lakers, tekjuhæsti íþróttamaður heims á síðustu tólf mánuðum með um 127 milljónir dala eða um 16,8 milljarða íslenskra króna.

Hægt er aðsjá listann í heild sinni hér. Írski bardagakappinn Conor McGregor var efstur á síðasta ári eftir að hafa selt viskíframleiðslufyrirtæki sitt en dettur í 22 .sæti listans í ár.

LeBron hoppar upp um fjögur sæti á milli ára en stærstur hluti þessarar upphæðar má rekja til tekna LeBrons utan vallar þar sem fjárfestingar hans undanfarin ár hafa verið gulls ígildi.

Af tíu tekjuhæstu íþróttamönnum heims síðasta árið eru fjórir körfuboltamenn, þrír knattspyrnumenn, einn úr hnefaleikum, einn úr tennis og einn úr golfi.

Canelo Álvarez var tekjuhæsti íþróttamaður heims ef eingöngu er horft til þess hvað einstaklingar þénuðu fyrir afrek sín innan íþróttagreinarinnar.

Veglegir auglýsingasamningar og fjárfestingar sem hittu í mark hjá LeBron, Lionel Messi, Cristiano Ronaldo og Neymar gera það að verkum að hnefaleikakappinn er aðeins í fimmta sæti listans.

Naomi Osaka heldur titlinum sem tekjuhæsta íþróttakona heims og er í 20. sæti listans yfir tekjuhæsta íþróttafólk heims með tekjur upp á 53,2 milljónir dala.