LeBron James nær þeim merka áfanga síðar á þessu ári að verða sjötti íþróttamaðurinn í sögunni sem nær að rjúfa milljarð talna múrinn í tekjum. Með því kemst LeBron í flokk með knattspyrnumönnunum Cristiano Ronaldo og Lionel Messi, hnefaleikakappanum Floyd Mayweather, kylfingnum Tiger Woods og körfuboltamanninum Michael Jordan, en stór hluti tekna Jordan kom eftir að leikmannaferlinum lauk.

Í samantekt sem Forbes tók saman á dögunum kom fram að LeBron þéni um 95,4 milljónir dala á þessu ári, þar af 64 milljónir með auglýsingasamningum, sem ýtir honum yfir milljarð dollara þröskuldinn síðar á þessu ári. LeBron á tvö ár til viðbótar eftir af samningi sínum við Los  Angeles Lakers, sem ætti að færa honum 85 milljónir dala til viðbótar, en á þessu ári þarf hann, líkt og aðrir leikmenn deildarinnar, að gefa eftir tuttugu prósent launa sinna vegna áhrifa kórónaveirufaraldursins á tekjustreymi félaganna í NBA-deildinni.

Tekjuhæsti leikmaður deildarinnar

Tæp sjö ár eru síðan LeBron tjáði sig fyrst um að hafa það að markmiði að verða milljarðamæringur í samtali við GQ og nokkrum árum síðar greindi einn helsti viðskiptafélagi LeBrons, Maverick Carter, frá áhuga körfuboltamannsins að eignast einn daginn lið í NBA-deildinni. Á þessum sjö árum sem liðin eru frá ummælum körfuboltamannsins um markmiðin að verða milljarðamæringur hefur LeBron verið tekjuhæsti leikmaður deildarinnar öll sjö árin.

Þar eiga veglegir auglýsingasamningar sinn þátt en fyrir sex árum síðan samdi LeBron til lífstíðar við íþróttavöruframleiðandann Nike sem gæti fært honum allt að milljarð dollara. Þá er hann með samninga við AT&T, Beats, Kia, Walmart og nýlegan samning við Pepsi eftir átján ára samstarf við Coca Cola. Þá hefur LeBron verið duglegur í fjárfestingum með góðum árangri utan vallar. Hlutdeild hans í enska knattspyrnuliðinu Liverpool hefur margfaldast á stuttum tíma líkt og hlutur hans í skyndibitakeðjunni Blaze Pizza