Heimsfrægi körfuboltakappinn LeBron James var staddur á Íslandi á dögunum. Hér á landi heimsótti hann til að mynda Drangey í Skagafirði ásamt fríðu föruneyti.
Viggó Jónsson hjá Drangeyjarferðum ræddi við Fréttablaðið um upplifun sína af kappanum.
LeBron var hluti af hópi sem naut alls þess sem Drangey hefur upp á að bjóða. Hann var ekki sá eini heimsfrægi í hópnum. Skíðadrottningin Lindsey Vonn og leikkonan Rebel Wilson voru einnig með í för.
„Þetta var svona hákarlaferð,“ segir Viggó léttur. Hópurinn hafi til að mynda farið á kajak og svo í jóga í fjörunni. „Þau skoðuðu eyna og svo var blásið til veislu. Þetta var mjög góður túr.“

Viggó hefur ekkert nema gott eitt að segja um upplifun sína af LeBron.
„Hann var mjög skemmtilegur, mjög vinalegur náungi. Það var rosalega skemmtileg upplifun að hitta þennan mann. Líka hvað hann er hægur, prúður og skemmtilegur, þetta er bara indæll gæi. Það voru engir stjörnustælar eða neitt í þessu fólki, engu þeirra. Þetta er virkilega skemmtilegt fólk, þau gáfu sig alveg að öllu og höfðu áhuga á því sem við vorum að gera, það var gaman líka,“ segir Viggó sem kippti sér ekki mikið upp við að vera í kringum allt þetta fræga fólk. „Þetta er bara fólk sem er í fríi. Maður er ekkert að spá í hverjir eru frægir og ekki sem koma til Drangeyjar, þetta er allt sama fólkið sem kemur hingað.“
LeBron, Vonn og Wilson þótti mikið til Drangeyjar koma, enda magnaður staður. „Þau áttu ekki til orð yfir hvað þetta er fallegt,“ segir Viggó. „Að keyra undir bjargið með þennan mikla fuglanið, þetta er náttúrulega eins og að keyra inn í sinfóníutónleika.“

Helgi Rafn Viggósson, sonur Viggós, rekur Drangeyjarferðir ásamt föður sínum. Auk þess er hann fyrirliði Tindastóls í körfubolta. Það var því eðlilega stór stund þegar hann hitti LeBron. „Það var gaman fyrir hann að hitta kónginn,“ segir Viggó.
Það er óhætt að segja að Viggó horfi sáttur til baka á kynni sín af LeBron og hinum stjörnunum. „Þetta var hápunktur sumarsins enn þá,“ segir Viggó hjá Drangeyjarferðum.
