LeBron James varð á dögunum 42. maðurinn í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta til að taka tíu þúsund fráköst og verður hann á næstu vikum sjöundi maðurinn til að ná tíu þúsund stoðsendingum.

Hann er með 9923 stoðsendingar eftir leik Los Angeles Lakers í nótt og hefur verið að gefa um sex til átta stoðsendingar í leik undanfarnar vikur. Það ætti því að taka um tíu leiki til að ná stoðsendingu númer tíu þúsund.

Með því verður hann fyrsti einstaklingurinn til að ná yfir þrjátíu þúsund stigum, tíu þúsund fráköstum og tíu þúsund stoðsendingum.

LeBron er á nítjánda ári sínu í deildinni og var valinn í stjörnulið NBA-deildarinnar átjánda árið í röð fyrr í þessari viku.

Þrátt fyrir að vera orðinn 37 ára er ekkert að hægjast á LeBron í sóknarleik Lakers þótt að lítið fari fyrir varnarleiknum þessa dagana.