LeBron James er sá einstaklingur sem fær best greitt í NBA-deildinni þegar auglýsingatekjur eru teknar inn í myndina samkvæmt nýjum lista Forbes.

Samkvæmt listanum fær LeBron um 89 milljónir dollara á þessu tímabili eða rétt rúmlega tíu milljarða íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

James fær vel greitt frá Lakers, tæpar 36 milljónir dollara en hann, líkt og Steph Curry og Kevin Durant, fá betur greitt utan vallar þar sem auglýsingatekjur og hagnaður fyrirtækja þeirra kemur inn í jöfnuna.

Curry er í öðru sæti með tæpar 80 milljónir dollara, þar af 42 milljónir sem koma utan vallar og liðsfélagi hans hjá Warriors, Durant, er í þriðja sæti með 65 milljónir dollara. Af þeim koma 35 milljónir úr auglýsingatekjum og slíku.

Durant sem verður samningslaus í sumar gæti klifið listann á næsta ári en hann hefur verið orðaður við New York Knicks og má búast við að auglýsingatekjur hans margfaldist við það.

Russell Westbrook, James Harden, Chris Paul, Giannis Antetokounmpo, Damien Lillard, Blake Griffin og Paul George koma í næstu sjö sætum.

Samtals fá þessir leikmenn um 540 milljónir dollara á þessu tímabili.