Tom Werner, stjórnarformaður fjárfestingahópsins Fenway Sports Group, FSG, sem á meðal annars Liverpool, hefur staðfest að LeBron James muni setja á markað fatalínu sem ætlað er að keppa við Air Jordan fatalínuna hjá Nike.

James, sem leikur með NBA-liðinu Los Angeles Lakers, keypti hlut í FSG fyrr á þessu ári en hann hefur átt hlutabréf í Liverpool síðan árið 2011.

Fyrir tíu árum síðan keypti James tveggja prósentu hlut í Liverpool en jók hlutabréfaeign sína í félaginu á árinu og er nú í samstarfi við Maverick Carter að setja á laggirnar fatalínu.

Á síðasta ári birtist ljósmynd af James í Liverpool-fatnaði og síðan þá hefur ekki meira til spurst af áformum um samstarf körfuboltamannsins við knattspyrnufélagið.

„Við erum að framleiða fatalínu í samstarfi við LeBron og Nike er að hann sjö til átta vörutegundir sem tengja hann við fótbolta. Planið er að vera í samkeppni við Air Jordan-fatalínu sem Nike framleiðir einnig," segir Werner í samtali við Boston Globe.

Franska stórveldið PSG hefur notað Air Jordan-fatalínuna síðan árið 2018 í búningnum sínum og fatnaði tengdum liðinu. Nú ætlar Liverpool að fara sömu leið í markaðsstarfi sínu.