Bandaríski körfuboltamaðurinn Lebron James, leikmaður NBA liðs Los Angeles Lakers er staddur hér á landi. Karfan.is greindi fyrst frá.

Lebron James hefur skipað sér meðal bestu körfu­bolta­manna sögunnar, hann er fjórfaldur NBA-meistari og hefur gert garðinn frægan með liðum á borð við Los Angeles Lakers, Miami Heat og Cleveland Cavaliers.

Hann er nú í fríi frá NBA-deildinni sem lauk á dögunum en það voru Golden State Warriors sem tryggðu sér NBA titilinn eftir sigur á Boston Celtic í úrslitum úrslitakeppni deildarinnar.

Lebron og félagar í Los Angeles Lakers fóru snemma í frí eftir að hafa spilað undir væntingum á nýafstöðnu tímabili og hefur kappinn talið það vænlegan kost að kíkja til Íslands og hlaða batteríin fyrir næsta tímabil hér á landi.

Fréttablaðið sagði frá því á dögunum að upp­boðs­haldarar búast við spennu­þrungnu upp­boði næstu vikurnar en opnað var fyrir til­boð í ein­stakt körfu­bolta­spjald tengt körfu­bolta­manninum Lebron James á dögunum. Gert er ráð fyrir því að spjaldið fari á yfir 6 milljónir dollara en það tengist körfu­bolta­ferli Lebron með Cle­veland Ca­vali­ers, Miami Heat sem og Los Angeles Lakers.

Um leið og þetta ein­staka spjald var gefið út hófst mikil sam­keppni meðal safnara um að finna það. ,,Besta sam­líkingin við at­burðarásina sem fór af stað er sagan um Kalla og súkku­laði­verk­smiðjuna þar sem allir reyndu að komast yfir gull­miða sem myndi koma þeim í súkku­laði­verk­smiðjuna. En í þessu til­felli er bara einn gull­miði í stað fimm," sagði Ken Goldin, fram­kvæmdar­stjóri upp­boðs­haldaranna í sam­tali við Reu­ters.