Bandaríska körfuboltasambandið er búið að útnefna 44 manna lista fyrir Ólympíuleikanana næsta sumar og eru stærstu stjörnur NBA-deildarinnar á listanum.

Alls eru níu leikmenn sem voru í liði Bandaríkjanna árið 2016 og sjö úr hópnum frá 2012 en bandaríska liðið hefur unnið til gullverðlaunanna á síðustu þremur Ólympíuleikum.

Gregg Popovich mun stýra liðinu ásamt Steve Kerr, Lloyd Pierce og Jay Wright en undir stjórn Popovich stóð bandaríska liðið ekki undir væntingum á HM síðasta sumar.

Gömlu stórveldin Boston Celtics og Los Angeles Lakers eiga flesta fulltrúa í 44 manna hópnum eða fimm hvor.

LeBron James sem gaf ekki kost á sér á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016 er á listanum ásamt liðsfélögum sínum hjá Lakers, Anthony Davis, Kyle Kuzma, Dwight Howard og JaVale McGee.

Þá eru Kevin Durant, Klay Thompson og Steph Curry allir á listanum þrátt fyrir að vera að glíma við meiðsli. Curry hefur aðeins komið við sögu í fjórum leikjum á þessu tímabili á meðan Thompson og Durant eru á hliðarlínunni í endurhæfingu vegna meiðsla.

Hópinn í heild sinni má sjá hér.