LeBron James varð í nótt sá leikmaður sem hefur unnið flesta leiki í úrslitakeppni NBA-deildarinnar þegar hann fór fyrir liði Los Angeles Lakers í 112-102 sigri á Houston Rockets.

Með því tók LeBron fram úr Derek Fisher, leikstjórnandanum sem lék lengst af með Los Angeles Lakers en einnig með Golden State Warriors, Utah Jazz, OKC Thunder og Dallas Mavericks.

LeBron var stigahæstur í liði Lakers í nótt sem er komið 2-1 yfir eftir að hafa tapað fyrsta leiknum gegn Rockets í „búbblunni“ í Orlando.

Með því hefur LeBron unnið 162 leiki í úrslitakeppninni af 247 leikjum en hann var í liðinu sem lék til úrslita fyrir hönd Austurdeildarinnar átta ár í röð þegar LeBron lék með Miami Heat og Cleveland Cavaliers.