Ár er liðið í dag frá því að knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson var handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.

Í vor var tilkynnt að hann fengi að ganga laus gegn tryggingu og væri áfram í farbanni til 16. júlí.

Lögreglan í Manchester hefur ekki gefið út hver næstu skref verða á opinberum vettvangi þegar dagurinn er runninn upp.

Gylfi sást í fyrsta sinn á opinberum vettvangi í eitt ár þegar hann mætti á leik Íslands og Ítalíu á dögunum.

Frænka hans, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, skoraði mark Íslands í leiknum.

Hafnfirðingurinn er laus allra mála hjá Everton en hann kom ekkert við sögu á síðasta tímabili.

Hann var fjarlægður úr leikmannahópi Everton eftir að rannsókn málsins hófst.