Karla- og kvennalandsliðin í fótbolta tóku á sig launalækkun í verkefnum sínum í september. Stelpurnar spiluðu léttan leik gegn Lettum og unnu skyldusigur 9-0. Fyrir sigurleik fær hver leikmaður um 300 þúsund króna sigurbónus, en að þessu sinni var hann lægri en venjulega í ljósi stöðunnar. Stelpurnar gerðu svo vel í því að ná stigi gegn Svíum, en fyrir jafntefli fær leikmaður um 100 þúsund krónur, en stigabónusinn var lægri að þessu sinni. Karlaliðið tapaði báðum leikjum sínum í Þjóðadeildinni og því þurfti ekki að greiða sigur- eða stigabónusa þar á bæ.

Rúm tvö ár eru síðan KSÍ jafnaði árangurstengdar greiðslur til karla og kvenna og kostar hver sigurleikur sambandið um sjö milljónir, ef 23 eru í hópnum. Laugardalsvöllur tekur tæplega 9.800 manns í númeruð sæti, og þegar hann fyllist eru tekjur af seldum miðum um 30 milljónir króna, samkvæmt skýrslu KPMG um Laugardalsvöll. Í COVID-storminum munar um hverja krónu. Dagpeningar landsliðsfólksins voru þó ekki skertir, en þeir hafa verið jafnir í töluverðan tíma.

„Það hafa flestir ef ekki allir reynt að láta þetta ganga upp. Þetta er erfitt ástand fyrir okkur eins og marga aðra,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ. Hann er stoltur af landsliðsfólkinu fyrir að hafa lagt sitt á vogarskálarnar. „Ég held að í þessu árferði og aðstæðum þurfi að standa saman í því að láta enda ná saman. Það kreppir að hjá okkur eins og öðrum.

Þetta umhverfi sem við öll erum að glíma við, bæði hér heima og erlendis, er eitthvað til að takast á við saman. Fólk er að taka á sig launaskerðingu, minnka starfshlutfall, minnka bónusa og dómararnir tóku einnig á sig skerðingu,“ segir Guðni.

Tómur Laugardalsvöllur skilar engum tekjum til KSÍ og segir Guðni að sambandið sjái fram á erfitt ár. Framlög frá FIFA komi þó að góðum notum, styrkir frá stjórnvöldum og fleira létti aðeins undir en tekjutapið sé mikið. „Það er að verða skýrara hvort áhorfendur verða leyfðir í komandi leikjum í október. Ef þeir verða leyfðir verða þeir ekki margir, þannig að við verðum áfram fyrir töluverðu tekjutapi. Eins og staðan lítur út í dag verður tapið trúlega á annað hundrað milljónir þegar allt verður talið,“ segir formaðurinn.

Guðni Bergsson