Jody Lukoki, fyrrverandi leikmaður Ajax, er látinn, 29 ára að aldri. Aðstandendur leikmannsins hafa staðfest þessar sorgarfregnir en Lukoki lék með öllum yngri landsliðum Hollands á sínum tíma en lék svo fyrir A-landslið Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó.

Dánarorsök hefur ekki verið gefin upp.

Í frétt breska blaðsins Mirror kemur fram að Lukoki hafi komið upp í gegnum öflugt unglingastarf Ajax og lék hann alls 39 leiki fyrir liðið á árunum 2010 til 2013. Hann skoraði þrjú mörk í hollensku deildinni tímabilið 2012 til 2013 og varð meistari öll árin.

Hann var svo seldur til PEC Zwolle árið 2014 og fór svo til Ludogerts Razgrad í Búlgaríu árið 2015 þar sem hann lék við góðan orstír um nokkurra ára skeið.

Lukoki var síðast á mála hjá FC Twente í Hollandi en varð fyrir slæmum hnémeiðslum í byrjun tímabils sem héldu honum á hliðarlínunni í vetur. Hann var leystur undan samningi hjá félaginu í febrúar síðastliðnum.