Körfuboltadeild Þórs Þorlákshöfnar hefur náð samkomulagi við Lárus Jónsson um að taka við þjálfun karlaliðs félagsins. Hann tekur við starfinu af Friðriki Inga Rúnarssyni sem lét af störfum hjá félaginu á dögunum. Það eru hafnarfrettir.is sem greina frá þessu.

„Mér líst rosalega vel á að taka við Þórsliðinu. Liðið er búið að vera stöðugt í efstu deild síðustu ár með góðan kjarna af heimastrákum og mikill metnaður í stjórn til þess að ná árangri.

Með samstillu átaki bæjarbúa þá er ég ekki í nokkrum vafa um að við getum búið til mjög skemmtilega stemmningu í körfuboltabænum Þorlákshöfn,“ segir Lárus í samtali við Hafnarfréttir.

Lárus sem er Rangæingur og hóf sinn körfuboltaferil með Hamri í Hveragerði en auk þess að spila með Hamri lék hann fyrir KR, Njarðvík og Fjölni.

Þjálfaraferill Lárusar hófst hjá uppeldisfélaginu, Hamri, en þaðan fór hann í Breiðablik og síðustu tvö ár þjálfaði hann Þór Akureyri. Lárus kom Akureyrarliðinu upp í efstu deild og Þór hélt sæti sínu í Domino's-deildinni sem var nýverið hætt vegna kórónaveirufaraldursins.