Fyrir tæpum fjórum árum tók Lars Lagerbäck við stjórnartaumunum hjá norska karlalandsliðinu í knattspyrnu. Noregur var þá á slæmum stað með landslið sitt en ungir og spennandi leikmenn voru að koma upp í yngri landsliðum og Lars átti líkt og hann gerði á Íslandi á sínum tíma að leiða liðið inn í bjartari tíma með blóm í haga.

Norðmenn voru vongóðir um að leikmenn á borð við Erling Braut Haaland, Martin Ødegaard, Sander Berge, Birger Meling, Kristoffer Ajer og Mohamed Elyounoussi væru að taka við keflinu hjá liðinu og Lars átti að koma með framtíðarsýn sem myndi koma liðinu í fremstu röð.

Var fyrsta verk hans að freista þess að koma norska liðinu á Evrópumótið sem fram átti að fara síðasta sumar en frestað var til næsta árs. Í upphafi þessa mánaðar gerði tap Noregs gegn Serbíu í umspili um laust sæti á EM það að verkum að draumurinn um sæti þar var runninn úr greipum norska liðsins.

Norskir sparkspekingar kepptust við að gagnrýna Lars sem af sinni stóísku ró bauðst til þess að hætta störfum væri það vilji norska knattspyrnusambandsins.

Í kjölfar láku rifrildi Alexanders Sørloth við Lars og þjálfarateymi hans í fjölmiðla og voru þar misfalleg orð látin falla í miklum tilfinningahita að sögn viðstaddra. Þar efaðist Sørloth um hæfni Lars og gagnrýndi störf hans harðlega.

Lars tjáði sig um þessa uppákomu í samtali við norska knattspyrnusambandið í vikunni. Þar sagði hann að á um það bil 30 ára ferli sínum sem þjálfari í alþjóðlegri knattspyrnu í hæsta gæðaflokki hefði hann ekki lent í því að lærisveinn hans færi jafn rækilega yfir strikið í skoðanaskiptum við sig og Sørloth gerði. Ljóst er að samstarf þeirra Lars og Sørloths verður erfitt fari það svo að Svíinn haldi áfram störfum hjá norska liðinu.

Þrír leikmenn norska liðsins, þeir Stefan Johansen, Omar Elabdellaoui og Joshua King, birtu svo yfirlýsingu á vef norska knattspyrnusambandsins þar sem dreginn var taumur Lars og sagt að Sørloth, samherji þeirra í landsliðinu, hefði gengið of langt í gagnrýni sinni, en um leið bent á að óþarfi hefði verið af Lars að draga inn í samtal þeirra fyrri mistök Sørloths í leik með Noregi. Sørloth hefur síðan beðist afsökunar á upphlaupi sínu og tíminn verður að leiða það í ljós hvort hann og Lars nái að slíðra sverðin.

Lars er ekki óvanur því að standa í stappi við stjórstjörnur þeirra liða sem hann stýrir en frægt er þegar hann sendi Zlatan Ibrahimovic, Olof Mellberg og Christian Wilhelmsson, þáverandi lykilleikmenn Svíþjóðar, í agabann fyrir að hafa brotið agareglur liðsins.

Lars hefur sagt það þegar hann ræðir við fjölmiðla um starfsaðferðir sínar sem þjálfari að hann aðhyllist að hafa fá en skýr viðmið um það hvernig leikmenn eigi að haga sér þegar þeir eru í verkefnum með liðum sem hann þjálfar. Geti þeir ekki farið að settum reglum eigi hann erfitt með að líða það.

Þá verður sömuleiðis að koma í ljós hvort norska knattspyrnusambandið mun veðja á Lars í komandi verkefnum. Síðan hann tók við stjórn liðsins hefur hann stýrt því í 34 leikjum þar sem 18 hafa unnist, átta lyktað með jafntefli og átta töp eru staðreynd.

Þessi 72 ára gamli herramaður var í raun sestur í helgan stein þegar einkar góðu dagsverki hans var lokið hjá íslenska landsliðinu árið 2016. Lars var þá fenginn til að gera hlé á garðyrkjustörfum sínum nokkrum sinnum á ári til þess að koma Noregi á beinu brautina.