Lars Lagerback ítrekaði að það væri ákvörðun Arnars Þórs Viðarssonar að hann skyldi stíga frá borði í þjálfarateymi karlalandsliðsins eftir stutta samvinnu.

Þetta kom fram í viðtali við Lars á Viaplay fyrir leik Íslands og Ísrael í kvöld.

Lars var kynntur sem hluti af þjálfarateyminu þegar Arnar Þór og Eiður Smári Guðjohnsen tóku við liðinu en fljótlega bárust fregnir af því að hann væri ekki lengur í teyminu.

„Þetta var hugmynd Guðna, að ég kæmi inn í teymið en ekki Arnars. Honum fannst betra að gera þetta upp á eigin spýtur og ég skil alveg ástæðuna þótt að manni hafi auðvitað þótt það leiðinlegt. Hann vildi gera þetta á sinn máta.“

Lars segist hugsa með hlýju aftur til tíma síns sem landsliðsþjálfari Íslands.

„Ég á margar góðar minningar hérna frá Laugardalsvelli og frá Íslandi í heild sinni. Ég átti mörg af bestu árum lífs míns hér og það er gott að vera kominn aftur. Ég hef séð liðið í sjónvarpinu undanfarið en það verður gaman að sjá þá með eigin augum.“