Nokkuð er farið að sjá á veggnum við hliðina á markatöflunni á Laugardalsvellinum og hefur það stungið í auga gesta og gangandi á vellinum undanfarin misseri.

Veggfóður með íslenska fánanum er farið að flagna töluvert og tímabært að fara í að sparsla og mála vegginn sem var eitt sinn beinhvítur en er orðinn grámussulegur.

Sparkáhugamenn sjá í hillingum nýjan og endurbættan völl sem verið hefur á teikniborðinu í þó nokkurn tíma. Þó svo að framkvæmdir séu ekki hafnar og enn bara í sjónmáli geta menn glaðst yfir því að endurbætur standa yfir á vellinum þessa dagana.

Verið er að mála og fegra fyrrgreindan vegg og gera huggulegan fyrir heimsókn ríkjandi heimsmeistara, Frakklands, á Laugardalsvöllinn á föstudagskvöldið kemur.

Leikur Íslands og Frakklands er liður í undankeppni EM 2020 en Frakkar tróna þar ásamt Tyrklandi á toppi riðilsins og íslenska er í seilingarfjarlægð frá toppnum þremur stigum á eftir.

Uppselt er á leikinn annað kvöld og stuðningsmenn íslenska liðsins geta látið sig dreyma um íslensk mörk og hlakkað til að líta á glæsilegan vegginn í fagnaðarlátunum þegar litið er á markatöfluna til þess fá markið staðfest.