Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, segir líkurnar fara dvínandi á því að mót á Evrópumótaröð kvenna í golfi fari fram á Íslandi í ljósi þess hversu hár kostnaður því fylgir að halda slíkt mót á Íslandi. Golfsambandið hefur ekki slegið hugmyndina út af borðinu en Haukur segist ekki eiga von á því að úr því rætist á næstunni.

Fréttablaðið greindi frá því síðasta sumar að Evrópumótaröðin hefði sýnt því áhuga á að bæta við móti á Íslandi og staðfestu bæði Haukur og fjölmiðlafulltrúi mótaraðarinnar að áhugi væri til staðar sem mætti rekja til ársins 2017. Um er að ræða næst sterkustu mótaröð heims á eftir þeirri bandarísku og á Ísland einn fulltrúa á mótaröðinni, Skagameyna Valdísi Þóru Jónsdóttur.

Valdís Þóra náði besta árangri sem íslenskur kylfingur hefur náð á Evrópumótaröðinni þegar hún lenti í þriðja sæti í fyrra. Þá hafa Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir einnig leikið stök mót á mótaröðinni undanfarin ár en Ólöf María Jónsdóttir varð fyrsti kylfingurinn sem komst inn á mótaröðina árið 2003.

„Við höfum ekki setið formlegan fund um þetta mál í nokkurn tíma, ég hef nokkrum sinnum hitt á framkvæmdastjóra mótaraðarinnar á ráðstefnum erlendis og við höfum rætt þetta þar án þess að sitja formlegan fund. Það sem tefur málið og kemur í veg fyrir að þetta sé komið á teikniborðið hjá Golfsambandinu er sá mikli kostnaður sem fylgir því að halda slíkt mót,“ sagði Haukur í samtali við Fréttablaðið, spurður út í tíðindi af viðræðunum.

„Kostnaður við mót af þessari stærðargráðu er mikill og lendir á mótshaldara. Sá kostnaður er yfirleitt yfirstiginn með aðkomu styrktaraðila í tengslum við mótið. Stærsti kostnaðarliðurinn er verðlaunaféð í mótinu og svo auðvitað framkvæmdakostnaðurinn. Þetta eru umtalsverðar upphæðir sem hlaupa á tugum milljóna króna sem við þyrftum að finna.“

Haukur segir að fyrir vikið séu ekki mörg íslensk fyrirtæki sem koma til greina sem leiði til þess að viðræður þurfi helst að fara fram við fyrirtæki erlendis.

„Það yrðu ekki mörg fyrirtæki tilbúin að standa í slíkum kostnaði, þá helst fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði en á Íslandi eru þau bara ekki mjög mörg. Því miður munu þessar viðræður líklegast alltaf stranda á peningamálunum,“ segir Haukur og heldur áfram:

„Það yrði frekar að leita erlendra samstarfsaðila í þessum málum en það er erfiður markaður að komast á. Það er ekki á stefnuskrá GSÍ að fara í slíka fjársjóðsleit á næstunni þegar líkurnar eru litlar á að árangur náist.“

GSÍ er ekki búið að slá hugmyndina út af borðinu en Haukur segir líkurnar fara minnkandi.

„Við munum ekki útiloka neitt og verðum alltaf tilbúin að skoða möguleikana sem koma upp. Við værum auðvitað til í að halda golfmót fyrir bestu kylfinga Evrópu en fjárhagsleg hlið málsins stendur í vegi fyrir því á litlum markaði,“ segir Haukur spurður hvort möguleikinn sé til staðar að halda mót af slíkri stærðargráðu á Íslandi.