Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir bætti á dögunum Íslandsmetið utanhúss í greininni þegar hún kastaði kúlunni 16,72 metra á háskólamóti í Houston. Þar stundar hún nám og æfir kúluvarp en hún er á þriðja ári af fimm þessa stundina.

Erna Sóley á nú Íslandsmetið utanhúss og innanhúss en hún bætti metið innandyra í febrúar fyrr á þessu ári með kasti upp á 16,95 metra.

„Ég hef breytt lyftingaprógramminu hjá mér undanfarið og lyft léttar fjórum sinnum í viku í stað þungra lyftinga tvisvar í viku. Það, auk góðra kastæfinga, er að skila sér í stöðugri bætingu. Ég á hins vegar töluvert inni í því að styrkja mig líkamlega og ég stefni að því að halda áfram að gera það,“ segir Erna Sóley um bætingar sínar.

„Þá er ég aftur farin að keppa reglulega á mótum eftir að hafa keppt lítið á síðasta ári. Það skilar sér líka í stöðugri kastseríum og bætingum,“ segir þessi tvítugi kúluvarpari sem hefur sett stefnuna á að vera farin að kasta yfir 18 metra á næstu árum.

„Næst á dagskrá eru svæðismót þar sem væri gaman að vinna gull aftur eins og ég gerði fyrir tveimur árum síðan. Þar á eftir er svo forkeppni fyrir landsmótið utanhúss og ef ég kasta eins og ég gerði um síðastliðna helgi kemst ég inn á landsmótið í fyrsta skipti utanhúss. Vonandi held ég áfram að bæta mig á komandi vikum,“ segir hún um næstu verkefni hjá sér.

„Í sumar tek ég svo þátt á Evrópumeistaramótinu U-23 ára í Bergen í Noregi og þar stefni ég á verðlaunasæti. Svo mun ég að öllum líkindum koma heim í júní og taka þátt á þeim mótum sem verða haldin innanlands,“ segir Erna um framhaldið en hún nældi sér í brons á EM U-20 ára sumarið 2019.