Ousmane Dembele, sóknarmaður franska landsliðsins finnur ekki bara fyrir stressi innan vallar á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fer fram í Katar þessa dagana. Liðsfélagi Dembele í franska landsliðinu, Randal Kolo Muani greindi frá öðrum aðstæðum sem Dembele er stressaður yfir.

Dembele óttast nefnilega villiketti sem er að finna víða á götum Doha í Katar þar sem franska landsliðið heldur til þessa dagana.

,,Ousmane er hræddur við ketti," greindi Muani frá á blaðamannafundi franska landsliðsins sem er komið í 16-liða úrslit HM.

Þó svo að um alvarlegt mál sé að ræða fyrir Dembele sjálfan segir Muani að liðsfélagar hans í franska landsliðinu hafi mjög gaman að þessum ótta hans.

,,Við hlægjum allir að þessu."

Franska landsliðið mætir því pólska í 16-liða úrslitum á sunnudaginn.