Þann 10. janúar í upphafi þessa árs valt rúta með lækna- og hjúkrunafræðinema innanborðs sem voru á leið til Akureyrar í skíðaferð. Þrír farþegar í slútunni slösuðust í slysinu.

Þar á meðal var Berglind Gunnarsdóttir, landsliðskona í körfubolta og leikmaður úrvalsdeildarliðsins Snæfells. Bergldind tjáir sig um slysið og afleiðingar þess í færslu á facebook-síðu sinni.

„Nýjum áratug fylgdu vægast sagt krefjandi áskoranir fyrir mig, fjölskyldu mína og vini. Upphaflega planið var að spila loksins körfuboltaleik eftir sjö mánaða fjarveru vegna aðgerðar á öxl.

Það plan breyttist snarlega þann 10.01.2020 þegar ég slasaðist í rútuslysi með þeim afleiðingum að ég hlaut háls- og mænuáverka," segir Bergldind í færslunni.

„Fyrst eftir slysið gat ég lítið sem ekkert hreyft mig og skynið var brenglað. Mestu máli skipti þó að ég var á lífi, hausinn 100% í lagi og ég er ennþá sama Berglind.

Við fögnum öllum litlum sigrum en framundan er löng og mikil endurhæfing til þess að ná sem mestri hreyfigetu til baka. Keppnisskapið mitt er tilbúið í þessa áskorun," segir hún um eftirmála slyssins.

„Ég og mitt fólk þökkum vinum, viðbragðsaðilum, starfsfólki Landspítala og öllum þeim sem hafa sýnt okkur stuðning síðastliðnar vikur," segir þessi frábæri körfuboltamaður í lok færslu sinnar.