Aron Einar Gunnarsson greindi frá því í dag að hann hefði farið út að hlaupa með emírnum í Katar, Tamim bin Hamad Al Thani.

Tamim birti mynd á Instagram-síðu sinni í dag þar sem hann sést á hlaupum með Aroni Einari og fjölmörgum börnum í Doha, höfuðborg Katar.

Emírinn í Katar er þjóðarleiðtogi hins ríka olíuríkis og er Tamim bin Hamad Al Thani sá fjórði í röðinni eftir að núverandi stjórnarkerfi var tekið upp.

Tamim hefur stýrt landinu í sjö ár eða síðan faðir hans, Hamad bin Khalifa Al Thani, skipaði hann sem næsta emír árið 2013.

Ellefti febrúar er hinn alþjóðlegi íþróttadagur í Katar og er þá skipulögð íþróttadagskrá í skólum landsins.