Íslensku karla- og kvennalandsliðin í knattspyrnu munu leika í treyjum frá Puma næstu sex árin en KSÍ staðfesti þetta í dag.

Með því lýkur tuttugu ára samstarfi Íslands og ítalska íþróttavöruframleiðandans Erreá þann 1. júlí næstkomandi.

Orðrómar hafa heyrst um samkomulag KSÍ og Puma undanfarna mánuði en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland leikur í treyjum frá þýska framleiðandanum.

Búningurinn verður frumsýndur seinna í sumar líkt og nýtt landsliðsmerki sem mun prýða nýju treyjurnar.

Puma framleiðir treyjur fyrir Ítalíu, Sviss, Austurríki, Tékkland, Serbíu og Ísrael í Evrópu, Úrúgvæ og Paragvæ í Suður-Ameríku og þjóðir á borð við Fílabeinsströndina, Gana, Egyptaland og Senegal í Afríku.

„Ég vil byrja á að nota tækifærið og þakka Errea fyrir langt og farsælt samstarf, KSÍ og Errea hafa upplifað margt saman í gegnum árin. Nú er komið að nýjum kafla í búningasögunni og næstu skref á okkar vegferð tökum við með PUMA. Við erum afar spennt fyrir samstarfinu við PUMA, sem er án vafa eitt fremsta íþróttavörumerkið í heiminum í dag, og hlökkum mjög til þess að sjá fyrsta PUMA búning landsliða Íslands kynntan um miðjan júlí. Ekki má gleyma því að við ætlum að kynna nýtt myndmerki landsliðanna okkar í lok júní, þannig að nýji PUMA búningurinn verður með nýja landsliðsmerkinu,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í tilkynningunni.