Fyrrverandi landsliðskona Íslands í handbolta, Harpa Melsteð, á dóttur í undir 18 ára liði Íslands sem hafði sent henni mynskeið af hótelherbergi sínu í Serbíu.

Harpa birti myndskeiðið sem dóttir hennar hafði sent henni og á því má sjá mús á hótelherberginu. Harpa Melsteð, sem hefur farið í fjölmargar landsliðsferðir með landsliði Íslands, segist hafa upplifað ýmislegt á sínum landsliðsferli en það hafi ekki neitt verið í líkingu við þetta.

,,Óþrifnaður, táneglur og fleira gums var eitthvað sem maður sá í mörgum landsliðsferðum í gegnum tíðina. Ég get sagt ykkur að ég hefði ekki hvílst í 1 sekúndu ef það hefði verið músagangur í herberginu mínu eins og u-18 ára landsliðið okkar er að upplifa í Serbíu, ekki boðlegt," skrifar Harpa Melsteð í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter.

Í samtali við RÚV í morgun segir landsliðsþjálfari Íslands, Ágúst Þór Jóhannsson það ekki vera leyndarmál að það eru mýs hlaupandi út um allt hótel hjá landsliðinu í Serbíu. ,Það er ekkert bara á einu herbergi, heldur bara á öllu hótelinu. Þetta er auðvitað óboðlegt,“ sagði Agúst í samtali við RÚV.

Ágúst segir íslenska liðið vera búið að kvarta og að það sé verið að vinna í málunum.

Íslenska landsliðið vann góðan 24-21 sigur á Slóveníu í gær og mun síðan leika við Slóveníu í dag áður en að liðið spilar gegn Serbum á morgun. Ágúst segir aðstæðurnar á hótelinu hafa áhrif á undirbúning liðsins. ,,Já, auðvitað gerir hann það. Sumir leikmenn eiga erfiðara með að hvílast með þessar mýs hlaupandi út um allt.“