Strákarnir okkar hefja leik á Evrópumótinu í handbolta í kvöld þegar Ísland mætir Portúgal í stærstu handboltahöll Evrópu. Leikurinn hefst klukkan 19.30 og fer fram í Búdapest.

Landsliðið æfði í hinni stórglæsilegu MVM Dome höll í fyrsta sinn í gær. Allir leikir Íslands á mótinu fara fram í höllinni sem var opnuð á síðasta ári og er ein sú flottasta í heiminum.

Þetta er annað stórmótið í röð sem Ísland hefur leik gegn Portúgal og þriðja stórmótið í röð sem liðin mætast.

Íslenska liðið er í sterkum riðli þar sem öll lið geta strítt hvert öðru og mega Strákarnir okkar því varla við því að misstíga sig í kvöld gegn Portúgal.

Hollendingar unnu nokkuð óvæntan sigur á Ungverjum í fyrsta leik og getur Ísland því komist í afar góða stöðu með sigri í kvöld.

Það er því Íslandi í hag að liðið sé fullskipað og engin smit að angra leikmannahópinn