„Að mínu mati er golf­íþróttin svo mikil tilfinningaíþrótt að góður hringur og góðir spilafélagar geta gert hvaða völl sem er í heiminum þann besta,“ segir Snorri Vilhjálmsson, golfvallahönnuður hjá Olazabal Design, aðspurður hvað geri golfvelli frábæra. Snorri hefur undanfarin ár unnið á Golf & Land Design í Austurríki, þar sem unnið var í samstarfi við Olazabal Design. Snorri er nú kominn í fullt starf hjá spænsku goðsögninni Jose María Olazabal og er einn þriggja Íslendinga sem vinna við golfvallahönnun svo að undirritaður þekki til.

„Ætli það megi ekki rekja golfáhugann aftur til þess þegar ég byrjaði í golfi á unglingsárunum hjá GKG. Maður var ekki lengi að fá golfbakteríuna. Ég fór síðar að aðstoða á námskeiðum hjá GKG en átti nú ekki von á því á þeim tíma að ég myndi vinna við golfíþróttina. Eftir að hafa klárað BSc í tölvunarfræði fann ég að ég vildi prófa eitthvað annað og eftir að hafa rætt við Edwin Roald golfvallahönnuð fór ég í nám í golfvallaarkitektúr í Skotlandi. Hluti námsins var að kynnast mörgum af bestu völlum heims á Bretlandseyjum.“

Snorri fór eftir námið frá Skotlandi til Englands en stoppaði stutt. Hann þáði atvinnutilboð frá Austurríki við golfvallahönnun og komst þar í kynni við Olazabal.

„Út frá náminu fékk ég starf í Bretlandi hjá golfarkitektinum Howard Swan, sem var mjög áhugavert og spennandi. Það opnaði augu manns fyrir þessum heimi en ég fann að ég vildi helst komast á meginlandið og stökk á tækifærið þegar það bauðst í Austurríki. Eigandi hlutar í hönnunarskrifstofu Olazabal er austurrískur og kom á samstarfi okkar á milli með tækniteikningar. Það þótti á þeim tíma mjög framsækið og tæknivætt,“ segir Snorri og tekur undir, aðspurður, að þeir hafi verið að mörgu leyti að ryðja veginn.

„Það má segja að við höfum að einhverju leyti verið að ryðja veginn með því að nýta tölvuna til að auðvelda starfið okkar. Við vorum að prófa okkur áfram með GPS og lófatölvur áður en það var jafn algengt og það er í dag. Í teyminu okkar var forritari sem aðstoðaði okkur að gera þessa vinnu auðveldari og sjálfbærari og þessar skrifstofur hafa nú unnið saman í rúm tíu ár. Í fyrra vann hönnunarstofa Olazabal samkeppni um endurhönnun á golfvelli á Spáni og hönnun á nýjum velli í Sádí-Arabíu sem krafðist fleiri starfsmanna og var ég þá ráðinn í fullt starf hjá þeim.“

Snorri og Olazabal kynntust fyrst fyrir tíu árum síðan.
Mynd/Aðsend

Undirrituðum leikur forvitni á hvernig einstaklingur Olazabal er, enda virðist hann skemmtilegur karakter úr sófanum á Íslandi. Hann vann tvisvar Masters-mótið á ferli sínum og varð annar Spánverjinn til að vinna risamót í golfi á eftir Seve Ballestros.

Þá hefur Olazabal leitt lið Evrópu í hinni heimsfrægu keppni um Ryder-bikarinn.

„Olazabal er náttúrulega goðsögn í golfinu og það er mikill heiður að vinna fyrir hann. Hann var frábær kylfingur sem vann tvo risatitla og leiddi lið Evrópu í Rydernum. Við kynntumst fyrst fyrir tíu árum síðan og hann er mjög jarðbundinn. Það er gott að vinna með honum. Hann er ekki í daglegum samskiptum við okkur arkitektana en hann tekur alltaf lokaákvarðanirnar. Við vorum ofboðslega glöð og stolt þegar Olazabal var valinn golfvallahönnuður ársins 2020,“ segir Snorri, en Olazabal minntist meðal annars á Snorra í þakkarræðu sinni.

Skrifstofa Olazabal hefur verið að hanna golfvelli í þrjátíu ár og eru 21 golfvöllur víðs vegar um heiminn eftir spænska kylfinginn.

„Þeir vellir sem skrifstofan hefur unnið að hafa fengið góðar móttökur og unnið til verðlauna. Education City í Katar sem ég vann að tækniteikningunum á, er strax kominn á Evrópumótaröðina og fékk völlurinn gott lof. Núna erum við að vinna í því að opna velli á Costa Navarino svæðinu í Grikklandi ásamt því að vinna í Sádi-Arabíu, Portúgal, Víetnam og Spáni. Þegar völlurinn er kominn á framkvæmdastig þarf reglulega að fara og taka út verkefnið og sjá til þess að hönnuninni sé fylgt eftir og aðlaga þar sem þess þarf, því það er ekki hægt að undirbúa allt á skrifstofunni. “

Aðspurður átti Snorri erfitt með að svara hversu langur tími færi í að teikna upp eins og einn golfvöll.

„Fyrsta skrefið er að skoða hvernig völlurinn passar inn í landið, sem getur tekið langan tíma. Það er erfitt að segja hversu margir koma að hönnuninni og hvað þeta tekur langan tíma. Það fer eftir kröfum viðskiptavinarins og aðstæðum.“

Hann segir að mörgu að huga þegar kemur að því að hanna golfvöll, en að því fylgi töluverð skriffinnska.

„Hönnunin sjálf er alltaf skemmti­leg, að koma vellinum fyrir og teikna hann. Það þarf að huga að mörgu en það skiptir öllu að völlurinn falli vel að landslaginu sem er til staðar. Maður reynir alltaf að nýta landslagið sem til er og reyna að bæta upp það sem hægt er þannig að hann falli vel að umhverfinu. Svo koma byggingaframkvæmdir, vegahönnun og stígakerfi. Stundum breytist það hvaða land er hægt að nota, í miðju verkefni. Næsta skref er hönnunin sjálf þar sem farið er í form og lögun á golfbrautunum, við reynum að móta völlinn og teikna allar hæðarlínur. Þá þarf að huga að grastegundum, hvaðan vatnið kemur og hvert það fer og þá blandast vökvunarkerfið og drenakerfið inn í hönnunina. Það þarf svo að gera útboðsgögn og gera tækniteikningar. Það getur verið töluvert af teikningum sem þarf að undirbúa fyrir hvert verkefni og þessu fylgir auðvitað líka mikil skriffinnska, símtöl og fundir.“

Eitt af verkefnum Snorra var að gera tækniteikningar fyrir golfvöll í Katar. Aðspurður tók hann undir að það væri sérstakt að hanna golfvöll á slóðum eins og Katar, þar sem fyrir var að mestu leyti sandur.

„Það er svo hin hliðin á þessu starfi, það er sérstakt að hanna golfvöll í nokkurs konar eyðimörk. Í Evrópu hefur maður oft landslagið en þarna var maður svolítið að hanna landslagið. Markmiðið var að reyna að hafa það eins náttúrulegt og hægt var og á sama tíma að gera völlinn eins sjálfbæran og hægt er. Það var ákveðið að nota endurvinnanlegt vatn frá byggðinni til að vökva vellina. Það var ekkert til sparað við að byggja völlinn en samt er hann hugsaður sem völlur fyrir almenning þar í landi með áherslu á kvenna- og unglingastarf,“ segir Snorri og segir að meiri áhersla sé lögð á sjálfbærni undanfarin ár.

„Kröfurnar í golfvallahönnun hafa aðeins verið að breytast. Vatnstorfærum fer fækkandi vegna þurrka. Það er verið að minnka vökvasvæðin á völlunum, sérstaklega í Evrópu, og gera vellina um leið vistvænni og sjálfbærari.“

Aðspurður hvar væri að finna bestu velli heims leitaði Snorri til Bretlandseyja. „Strandvellirnir í Bretlandi og Írlandi standa upp úr. Ég hef tvisvar fengið að spila St. Andrews sem er alveg magnaður. Svo eru þetta vellir eins og Royal Dornoch í Bretlandi og Ballybunion og Royal County Dawn í Írlandi. Maður gæti spilað þá á hverjum degi.“

Þegar kemur að íslenskum völlum er Snorri heimakær.

„Á Íslandi ber maður hlýjan hug til heimavallanna, GKG og Keilis. Ég á margar góðar minningar frá fyrstu árunum og unglingsárunum þar. Maður spilaði golf út í eitt og oft þurfti mamma að koma með mat út á völl. Þessir tveir verða alltaf í uppáhaldi.“

Hvaleyrin er í uppáhaldi hjá Snorri þegar kemur að íslenskum völlum ásamt velli GKG.
fréttablaðið/ernir